Söfnunarátakinu okkar lauk 23. september með söfnunarþætti á RÚV og í Sjónvarpi Símans. Þá var einnig á RÁS 2 skemmtilegur stemningsþáttur á föstudeginum fyrir sjónvarpsútsendinguna þar sem einstaklingar og fyrirtæki gátu keypt lög og/eða skotið þau út jafnharðan.
Niðurstaðan eftir bæði sölu varasettanna frá Benecos og söfnunarþáttanna er ríflega 80 milljónir króna sem fara beint til málefnis ársins, byggingu nýs húsnæðis fyrir Kvennaathvarfið.
„Við erum í skýjunum með árangurinn. Þetta þýðir að góður grundvöllur er nú fyrir byggingu húsnæðis þar sem konur og börn þeirra geta búið í allt að 2 ár meðan verið er að fóta sig aftur út í lífið“, segir Elísabet Sveinsdóttir
Þær stöllur sem standa að Á allra vörum vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í átakinu og undirbúningi þess undanfarna mánuði.
„Við hefðum ekki verið á allra vörum án stuðnings alls þess fólks sem hjálpaði til að ná þessum magnaða árangri, Landsbankans, RÚV, Pipars auglýsingastofu, Þóru Helga leikstjóra og SKOT productions, Símans og svona mætti lengi telja. Það er með ólíkindum hvað hægt er að gera þegar allir leggjast á eitt“, segir Gróa Ásgeirsdóttir.
Örfá varasett eru enn fáanlega á sölustöðum átaksins auk þess sem söfnunarnúmerin 903- 1502, 903-1505 og 903-1508, verða opin í viku til viðbótar.
„Við erum óendanlega þakklátar fyrir stuðning þjóðarinnar allrar, Heilsu sem flytur inn Benecos varasettin og allra söluaðilanna sem selt hafa varasettin án þess að taka söluþóknun. Það eru ekki til nóg stór orð til að lýsa þakklæti okkar“, segir Guðný Pálsdóttir.